Búðarglugginn

Þemasýning Byggðasafns Hafnarfjarðar, Kaupmaðurinn á horninu, fjallar um sögu og þróun verslunarhátta í Hafnarfirði frá þriðja áratugi 20. aldar. Eftir fyrra stríð tók bæjarbúum að fjölga og bærinn þróaðist hratt í samræmi við það en um miðja öldina voru litlar matvöruverslanir komnar á annað hvert götuhorn í bænum. Í heimsókninni fá nemendur leiðsögn um þemasýninguna, þar sem spáð er í þær breytingar sem urðu á verslunarháttum á síðustu öld. Á tímum kaupmannsins á horninu, skipti búðarglugginn miklu máli varðandi sýnileika verslana og var hann verkfæri kaupmannsins til að laða til sín viðskiptavini. Hvaða áhrif hafði þessi fjölgun verslana á hlutverk miðbæjar Hafnarfjarðar og upplifun bæjarbúa af honum? Hvernig hefur nútímatækni svo breytt því hvernig við upplifum bæjarkjarnannn, þar sem sýnileiki verslana hefur að miklu leyti flust yfir í heim tækninnar, t.d. snjallsíma?

Hæfniviðmið:

Heimsóknin er hugsuð sem áhugaverður námsvettvangur fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla. Í heimsókninni gefst m.a. færi á að efla eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina, samkvæmt aðalnámskrá, um að nemendur geti:

  • Greint samhengi heimabyggðar við umhverfi, sögu, menningu og félagsstarf.
  • Lýst með dæmum áhrifum tækni og mannlegra athafna á samfélag og umhverfi.
  • Metið heimildir og ólík sjónarhorn í umfjöllun um sögu og samtíð.
  • Velt fyrir sér ýmsum þáttum sem sagan hefur mótast af, svo sem umhverfi, samfélagsskipulagi og þjóðfélagshreyfingum.

Fyrirkomulag heimsóknar:

Fræðslufulltrúi tekur á móti nemendum í anddyri Pakkhússins og veitir þeim leiðsögn um þemasýninguna Kaupmanninn á horninu. Að leiðsögn lokinni vinna nemendur verkefni og setja sig í fótspor kaupmanns snemma á 20. öld.

Heimsóknin tekur um klukkustund.

  • Eftir samkomulagi - Heimsókn hópa þarf að bóka