Brot af því besta úr safnkosti Byggðasafns Hafnarfjarðar 2024

Skilti 1

Ljósm. Gunnar Rúnar Ólafsson. Ártal 1957.

Flensborgarskólatröppurnar í forgrunni vinstra megin á myndinni. Keili ber tignarlega við sjóndeildarhring. Horft er yfir Brekkugötu, Suðurgötu og út að holtinu sem rétt er byrjað að byggja á. Fyrsta sambýlishúsið eða „blokkin“ á holtinu var í daglegu tali kallað „Rauða myllan“.

Ljósm. Bjarni Friðriksson. Ártal 1930.

Mynd tekin af Hamrinum, horft er yfir Brekkugötu að Vestur-Hamri út að Óseyri og Hvaleyri. Togarar liggja við akkeri í höfninni. Fyrir miðri mynd er húsaþyrping af íbúðar-, verslunar- og pakkhúsum Böðvarsbræðra en elsta byggingin þar, með ljósu þaki og viðbyggingu með þremur gluggum, stendur enn og er hluti af Fjörukránni við Víkingastræti. Fyrir miðri mynd sést hvar verið er að stækka Böðvarsbakarí sem þarna er komið í eigu Ásmundar Jónssonar, bakarameistara og eiganda Kexverksmiðjunnar Geysis, og varð síðar Ásmundarbakarí.

Skilti 2

Ljósm. óþekktur. Ártal 1990–2000.

Bátar og trillur í suðurhöfninni. Trilla á leið út úr höfninni. Til vinstri er bátaslippur skipasmíðastöðvarinnar „Drafnar“, svo er gamla Íshúsið sem byggt var 1908 og þá nýja Íshúsið. Reisuleg hús í suðurbænum.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1990–2000.

Smábátahöfnin. Bátar og trillur við festar flotbryggjunnar sem að hluta til var áður Hótel Víkingur á Hlíðarvatni á Snæfellsnesi. Um 1970 var skrokkur hótelsins fluttur og honum komið fyrir í suðurhöfninni.

Skilti 3

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1950.

Vélsmiðja Hafnarfjarðar um 1950. Vélsmiðjan starfaði sem slík allt fram til ársins 1989 er vélsmiðjan hætti og var auglýst til sölu. Myndlistarskóli var starfræktur í húsinu um nokkurt skeið og Byggðasafn Hafnarfjarðar hafði aðstöðu fyrir geymslu og sýningar í hluta hússins sem nefndist „smiðjan“, þar var síðar leikhópurinn Hermóður og Háðvör og svo Gaflaraleikhúsið. Húsið hefur tekið breytingum frá upphaflegu útliti.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1932.

Árið 1919 létu Böðvarsbræður reisa 83 fermetra smiðju á þessum stað og er það miðjubyggingin með mænisþakinu og reykháfnum. Húsið var byggt úr tilhöggnum grásteini, að innan var það húðað með sementi en því var skipt í eldsmiðju og vélaherbergi. Litla byggingin vinstra megin við hlaðna húsið var gripahús en tvílyfta byggingin til hægri var sú nýjasta. Hún var byggð árið 1930.

Skilti 4

Ljósm. óþekktur. Ártal 1959.

Verið er að undirbúa jarðveginn fyrir íþróttahús bæjarins. Þarna stóðu fiskverkunar- og pakkhús en á hernámsárunum var þarna braggakampur. Til vinstri sér í bakhlið Strandgötu 50a sem þá var en fyrir miðri mynd er sjoppan „Bollan“ og strætóstoppistöðin við Strandgötu. Lengst til hægri á myndinni er verslunarhúsið Álfafell en húsið stóð áður í brekkunni sem nú er Brekkugata.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1908.

Hús Milljónafélagsins á Hamarskotsmöl (Strandgata 50) árið 1908. Tvílyfta húsið var upphaflega pakkhús á einni hæð en var hækkað um 1900 með íbúð á efri hæðinni en verslunar- og skrifstofuhúsnæði á neðri hæðinni. Húsið lengst til hægri var upphaflega íbúðar- og gripahús byggt um 1860 og gekk undir nafninu „fjósið“. Það stendur enn og er hluti af Fjörukránni.

Skilti 5

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1935–1945.

Hús við Skólabraut að Hverfisgötu speglast á lygnum Hamarskotshamarslæknum. Vinstra megin er hús Guðjóns Arngrímssonar trésmíðameistara byggt 1923 en hefur verið stækkað. Lengst til hægri er steinhús við Hverfisgötu byggt 1925 en var rifið um 1970 þar sem það var fyrir í skipulaginu.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1930.

Þrír yfirbyggðir Ford-pallbílar, fyrirrennarar „rútubíla“, með ferðafólk á leið um Syðri-Lækjargötu. Tvílyfta húsið „Brautarholt“, Lækjargata 18. Það var byggt um 1909 og stækkað um 1925 en rifið 1998. Nýtt hús með sama nafni stendur nú á lóðinni.

Skilti 6

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1950.

Myndin er tekin af stígnum sem liggur upp frá Lækjargötu á milli húsanna númer 4 og 6 og upp á hamarinn. Fyrir miðri mynd er Barnaskólinn sem síðar varð Lækjarskóli þegar nýr barnaskóli var stofnaður á Öldum 1961, Öldutúnsskóli.

 

Ljósm. óþekktur. Ártal 1980.

Síðla árs 1979 var haldin hönnunarsamkeppni á  nýju hverfi í Hvömmunum. Fljótlega eftir það byggðust fyrstu húsin en íbúar máttu bíða eftir hitaveitunni og kyntu húsin sín í fyrstu með olíu.

Skilti 7

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1890.

Myndin er tekin uppi á Hamrinum. Í forgrunni myndarinnar eru þrjú börn Franz Siemsen sýslumanns. Klettarnir sem börnin sitja við voru kallaðir „Indíánatjaldið“ af börnum sem léku sér á þessum slóðum nokkru fyrir miðja 20. öld. Klettarnir standa þannig að þeir mynda afdrep sem er hægt að skríða inn í og í gegn. Fyrir miðri myndinni er Hamarskotslækur sem breiðir úr sér við moldarflötina.

Ljósm. Gunhild Augusta Thorsteinsson. Ártal 1908.

Myndin er tekin árið 1908 en það ár fékk Hafnarfjörður kaupstaðarréttindi. Eitt af fyrstu verkum hinnar nýju bæjarstjórnar var að koma á vatnsveitu og veita vatni úr Lækjarbotnum sem þótti afbragðsgott til neyslu. Bærinn stækkaði ört og var vatnsmagnið ekki nægilega mikið úr Lækjarbotnum. Því var brugðið á það ráð árið 1917 að sækja vatnið í Kaldárbotna.

Sjónarhornið er af Hamrinum, séð yfir húsin í „Brekkunni“ og á „Moldarflötinni“ sem síðar urðu Brekkugata og Syðri-Lækjargata. Þá yfir Hamarskotslækinn, miðbæinn og út að vesturbænum.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1920.

Hafnarfjörður í örum vexti um 1920. Þrengt hefur verið að Hamarskotslæknum og fiskreitur Einars Þorgilssonar byggður yfir lækjarmynnið. Tvær kirkjur, Þjóðkirkjan (1914) sunnan lækjar og Fríkirkjan (1913) norðan lækjar, risnar. Nokkur skip sjást við hafskipabryggjuna sem byggð var árið 1913. Fyrir miðri mynd er íbúðarhús og apótek Sørens Kampmann byggt úr steinsteypu árið 1920, þar er nú listasafnið Hafnarborg.

Skilti 8

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1990.

Myndin er tekin neðan Tjarnarbrautar og horft yfir Hamarskotslækinn að Raftækjaverksmiðju Hafnarfjarðar (Rafha), Öldugötu og Hamrinum sem ber við bláan himininn. Á hamrinum var lítið kot sem kennt var við hamarinn, Hamarskot, og dró hamarinn nafn af kotinu og var nefndur Hamarskotshamar. Hamarinn er úr grágrýti og má á enn sjá jökulristur í klettaberginu.

Árið 1938 orti Örn Arnarson um Hamarinn: 1/3

Hamarinn í Hafnarfirði

horfir yfir þétta byggð,

fólk að starfi, fley sem plægja

fjarðardjúpin logni skyggð.

Hamarinn á sína sögu,

sem er skráð í klett og bjarg.

Stóð hann af sér storm og skruggu,

strauma, haf og jökulfarg.

Ljósm. Magnús Ólafsson. Ártal 1921.

Syðri-Lækjargata árið 1921. Fremst á myndinni er brúin yfir á Austurgötuna. Þarna má sjá þau hús er standa undir Hamrinum og við Lækjargötuna. Lengst til vinstri er „Kassahúsið“ sem fékk nafnið vegna útlitsins, það er nú Lækjargata 12b. Þá Lækjargata 10b. Nokkurn veginn fyrir miðri mynd og nær læknum er Sveinsbær sem nú er Lækjargata 6 og við hliðina á því húsi er starfsmannahús Jóhannesar Reykdal sem hann nefndi Bergen en er nú Lækjargata 4. Á milli Sveinshúss og Bergen er stígur sem liggur upp á hamarinn og var helsta leiðin þangað upp þar til Flensborgarskólinn var reistur á Hamrinum.

Árið 1938 orti Örn Arnarson um Hamarinn: 2/3

Hamarinn í Hafnarfirði

horfði fyrr á kotin snauð,

beygt af oki kóngs og kirkju

klæðlaust fólk, sem skorti brauð,

sá það vaxa að viljaþreki

von og þekking nýrri hresst,

rétta bak og hefja höfuð

hætt að óttast kóng og prest.

 

Ljósm. Guðbjartur Ásgeirsson. Ártal 1928–1930.

Myndin er tekin á móts við gamla Flensborgarskólann fyrir 1930. „Hamarinn“ ber við himin á miðri myndinni en hæst ber Hamarskotshamar sem dregur nafn sitt af koti sem þar stóð. Þegar byggð þéttist undir hamrinum voru húsin skráð „í brekkunni“ en húsin á Vesturhamri urðu Vestur- og Austurhamar. Suðurgatan skipti hverfinu í austur og vestur, þar sem nú er m.a. Hamars-, Hellu- og Hlíðarbraut.

Örn Arnarson samdi um hamarinn: 3/3

Hamarinn í Hafnarfirði

horfir fram mót nýrri öld.

Hann mun sjá, að framtíð færir

fegra líf og betri völd.

Þögult tákn um þroska lýðsins:

Þar er hæð, sem fyrr var lægð,

jökulhefluð hamrasteypa,

hafi sorfin, stormi fægð.

Skilti 9

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1953.

Óþekkt hátíðarhöld á Hörðuvöllum, fánaberar með m.a. íslenska fána, fána íþróttafélaganna FH og Hauka og annarra félaga, ræðumaður í púlti. Sólvangur í byggingu og stórbýlið á Setbergi ber við himin á miðri myndinni. Dagheimilið á Hörðuvöllum til hægri.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1930/1931.

Jónsmessuhátíð á Hamarskotstúni. Hafnarfjarðarbær keypti túnið af Kirkjugarðssjóði árið 1930 og var kaupverðið 12.000 kr. Í afsalsbréfinu var skýr kvöð að ekki mátti byggja á túninu nema „byggingar til almennra þarfa. Það tún skal annars vera opinber skemmtistaður fyrir bæjarbúa“. Íslenski fáninn blaktir við hún í norðanvindi. Spariklætt fólk ýmist búið að koma sér fyrir eða á ferð um Hamarskotstúnið. Iðnaðarmannafélagið hélt útiskemmtun á Hamrinum árið 1930 þar sem boðið var upp á ræður, glímur, hljóðfæraslátt, dans á palli og umfram allt hlutaveltu. Voru vinningarnir ekki af verra taginu, m.a. emaleruð eldavél, grammófónn, taurulla, kaffi- og exportkassar, skór og fatnaður.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1955–1957.

Á árunum 1955 til 1957 var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur á Óseyrartúninu. Hátíðarhöldin samanstóðu af ræðum, róðrarkeppni á bátum sem sérstaklega voru smíðaðir fyrir hátíðina árið 1955 og „reipdrætti“. Einnig var messað og lúðrasveit lék undir skrúðgöngunni og á milli atriða. Árið 1956 var veður bjart og gott en „allhvasst“. Hátíðarhöldin enduðu svo með dansleik í samkomuhúsum bæjarins.

Skilti 10

Ljósm. óþekktur. Ártal 1926.

Fiskvinnslustúlkur í „pásu“ frá störfum hjá Hellyers-bræðrum sem héldu stórútgerð í Hafnarfirði á árunum 1924–1929. Um aldamótin 1900 var algengt að börn ynnu við fiskvinnslu og fengu þau laun eftir aldri, 5 til 10 aura á tímann. Stúlkur á fermingaraldri fengu 121/2 eyri á tímann sem þá var fullorðinskaup. Sigríður Erlendsdóttir verkakona, sú fimmta frá vinstri á myndinni, tók þátt í fyrsta verkfalli kvenna árið 1907. Hafði fiskurinn þá verið breiddur að morgni en þegar átti að taka hann saman að kvöldi neituðu konurnar að mæta til vinnu nema launin yrðu hækkuð. Svo heppilega vildi til fyrir verkfallskonurnar að það tók að rigna og bráðnauðsynlegt var þá að taka fiskinn saman. Komst á samkomulag á milli fyrirtækisins og verkakvennanna um launahækkun og fiskinum var því bjargað undan eyðileggingu.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1930.

Miðbærinn þrifinn. Gunnar Guðmundsson, starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar, stendur glaðbeittur við götu- og gangstéttaryksugu af gerðinni Hako HAMSTER. Gunnar var þekktur undir nafninu Gunni Dó en hann var kenndur við móður sína sem hét Dóróthea. Hafði Gunnar þann starfa að halda götum miðbæjarins hreinum. Myndin er tekin á horni Strandgötu og Linnetsstígs.

Ljósm. Þorkell Jóhannesson. Ártal 1950.

Starfsmaður Prentsmiðju Hafnarfjarðar stendur við bókaprentunarvél fyrirtækisins við Suðurgötu 18 en húsið var reist árið 1945. Prentsmiðja Hafnarfjarðar hóf starfsemi sína á bókbandsvinnu sumarið 1946 en stofnfundur hlutafélagsins hafði verið haldinn í mars árið áður. Prentsmiðjan var seld til Prentmets árið 2017.

Skilti 11

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1930.

Skipulagða íþróttaiðkun í Hafnarfirði má rekja aftur til ársins 1894 er Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans, hóf kennslu í leikfimi eftir nám í „Kadettskóla“ í Danmörku. Á myndinni er stúlknahópur á lóð Barnaskólans við lækinn, tilbúnar að leika listir sínar. Íþróttabúningur stúlknanna var heimasaumaður með bókstafnum H fyrir Hafnarfjörð.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1930.

Um 1906 þótti nokkrum Hafnfirðingum félagslífið í bænum heldur dapurlegt en upp úr því var stofnað Glímufélagið Hjaðningur. Þó að glímufélagið hafi verið vinsælt og vel sótt lognaðist það út af árið 1908. Á myndinni eru glímufélagar með sýningu á Hamarskotstúni, áhugasamir bæjarbúar fylgjast með.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1930.

Hallsteinn Hinriksson æfir stangarstökk á lóðinni fyrir framan Barnaskólann við lækinn um 1935 en einmitt það ár var íþróttaráð Hafnarfjarðar stofnað og upp úr því haldin skipulögð frjálsíþróttanámskeið.

Skilti 12

Ljósm. óþekktur. Ártal 1960.

Í norðurátt frá Strandgötu 29, handan götunnar sést hvar nýir gluggar eru komnir á Kaupfélagshúsið og Póst- og símahúsið í byggingu. Við Linnetsgötu er verið að byggja yfir og utan um „Fiskhöll“ Jóngeirs D. Eyrbekk. Hugðist Jóngeir búa á hæðinni fyrir ofan fiskbúðina en hann lést um það leyti sem húsið var fullbyggt.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1950.

Árabátar í uppsátri framan við Strandgötu 19. Hluti af steinhleðsluvegg við Thorsplan, timburkör, hjallar og annað tengt sjávarútvegi á víð og dreif. Strandgata 25 fyrir miðri mynd byggt árið 1904 fyrir Þorstein Egilson, fv. kaupmann og skáld.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1976.

Á móts við íþróttahúsið við Strandgötu. Unnið er við að fjarlægja rústir Strandgötu 50 eftir að kviknað hafði í því. Reyndist húsið svo illa farið að ekki þótti borga sig að gera það upp en það var rúmlega 100 ára gamalt. Upphaflega var húsið byggt sem pakkhús en því breytt í verslunar- og íbúðarhús um 1890. Húsin sem eftir standa eru nú hluti af Fjörukránni og Víkingahótelinu.

Skilti 13

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1950.

Starfsmannahús Bookless bros. var byggt árið 1918 og stóð þar sem nú er grænt svæði við Vesturgötu 32. Í fyrstu brunavirðingu af húsinu sem gerð var árið 1920 er húsinu lýst svohljóðandi: „Húsið er tvílyft með risi 1m. Því er skipt niðri í 3 stofur, eldhús og anddyri, uppi er húsinu skipt í 4 stofur og gang, húsið er allt klætt innan með panel og málað, allt er húsið raflýst. Húsið er notað til íbúðar fyrir verkafólk.“ Alls voru 18 gluggar á húsinu en engin salerni né baðaðstaða. Starfsmannahúsið var rifið árið 1979.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1925.

Þetta hús var byggt um 1890 af hjónunum Jörundi Þórðarsyni smið og Margréti Guðmundsdóttur yfirsetukonu. Í fyrstu brunavirðingu sem gerð var árið 1916 er húsinu lýst svohljóðandi: „Húsið er ein hæð með risi 2,20m. Niðri er því skipt í 3 stofur og eldhús, klætt innan með panel, 2 stofur fóðraðar, allt málað. Uppi er því skipt í 2 herbergi og anddyri, klætt innan með panel og málað. Húsið er notað til íbúðar. Inngönguskúr er áfastur við austurhlið hússins með bogaþaki“. Upphaflega var húsið kennt við Jörund en þegar hús fengu númer við götur varð húsið að Austurhverfi 8. Þannig var að hús sem ekki lágu við nýjar götur tilheyrðu „hverfum“, sbr. „Miðhverfi“ og „Vesturhverfi“, síðar fengu þau hús sem ekki voru rifin númer við götur og varð þá t.d. Austurhverfi 8 að Austurgötu 15b. Dóttir hjónanna, Emilía Lára, var síðasti ábúandinn og er garðurinn/lóðin kennd við hana „Lárugarður/Lárugerði“ af þeim sem muna hana.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1990.

Hús Brunabótafélags Íslands fyrir miðri mynd, Strandgata 45. Húsið sem var hæð og ris byggði Ingvar Guðmundsson stýrimaður árið 1905. Það var tvíbýli, s.s. eldhús bæði á hæðinni og í risinu. Árið 1910 bjuggu 15 manns í húsinu eða 3 fjölskyldur. Húsið stóð óbreytt til ársins 1966 er framhliðinni var breytt samkvæmt hátísku byggingastíls þess tíma. Ýmis fyrirtæki höfðu starfsemi í húsinu, s.s. Brunabótafélag Íslands, Fasteigna- og skipasalan hf., Akarn sem seldi m.a. bílskúrshurðajárn og Ljósritunarstofa Hafnarfjarðar.

Unglingarnir kölluðu húsið „Litlu Hollívúdd“ vegna þessarar framhliðar sem átti að vera aðeins til bráðabirgða.

Vinstra megin er Strandgata 41, háreist hús, tvær hæðir, kjallari og ris. Þar í kjallaranum var ritfangaverslun Þorvaldar Bjarnasonar um miðja síðustu öld og veitingastofan Skálinn var lengi rekin í húsinu.

Skilti 14

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1935.

Tveir drengir innan lóðar húss við Suðurgötu. Þvottabali á hvolfi upp við hlaðinn húsvegginn. Annar drengjanna með drykkjarmál í hendi en hinn er með kaskeiti á höfði og báðir eru þeir í smekkbuxum. St. Jósefsspítala ber við himin á miðri myndinni.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1935.

Ung kona íklædd kápu með „beret“ á höfði, hún heldur í höndina á barni sem einnig er í kápu en með kaskeiti á höfði. Þau standa ofarlega á Öldugötu.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1940.

Lítil telpa í ljósum kjól og peysu, hvítum sokkum og dökkum skóm stendur á óþekktum stað. Hún heldur í dúkkuvagn úr tré. Telpan stendur á steypustétt, steyptur kjallari og veggur er í umhverfinu. Vatnsrenna við húsvegginn sem losnað hefur frá bárujárnsklæddu húsi.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1935.

Ellefu börn, tvær telpur og níu drengir, stilla sér upp fyrir ljósmyndarann á lóðinni aftan við Vesturgötu 6. Steinhúsið sem ber við himin er Kirkjuvegur 7, byggt árið 1929 fyrir Ásgrím Sigfússon forstjóra eftir teikningum Ásgeirs G. Stefánssonar.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1931–1934.

Glaðlegt smábarn situr á frambretti Studebaker Six-bifreiðar með númerinu HF 1.

Ekki er vitað hvert barnið er en bifreiðina átti Björn Eiríksson, skip- og bifreiðastjóri á Sjónarhóli, Reykjavíkurvegi 22.

Skilti 15

Ljósm. óþekktur. Ártal 1926.

Hin nýja hafskipabryggja í Hafnarfjarðarhöfn um 1926. Handan hennar má sjá hús í og á Hamri, Jófríðarstöðum, í „Skuldarhverfi“ og „Ásbúðarhverfi“. Þegar götur voru lagðar lentu hús t.d. í Skuldarhverfi við Suðurgötu, Hringbraut og Bæjarhvamm.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1924.

Svendborgarhúsin, hæst ber þurrkhús Bookless bros. byggt árið 1912. Bookless bros. létu hlaða braut fyrir járnbrautarteina sem lágu frá Svendborg og upp að fiskreitunum á Víðistöðum. Vagnarnir með fiskinum voru ýmist dregnir af mannafla eða hesti. Þegar myndin er tekin voru eignirnar komnar í eigu Hellyers-bræðra en þeir héldu útgerð í Hafnarfirði frá 1924 til ársins 1929.

Skilti 16

Ljósm. óþekktur. Ártal 1924.

Á þessum stað byggði fyrstur Sveinn Sigfússon árið 1903. Voru húsin kennd við Svein og upp á dönsku nefnd „Svendborg“. Árið 1910 komu til Hafnarfjarðar skoskir bræður, Harry og Douglas Bookless, og keyptu þeir Svendborg fyrir útgerð sína. Til hægri er lýsisbræðsla en húsið með „veggsvölunum“ og fánastönginni var skrifstofa og dvalarstaður Bookless þar til Vesturgata 32 var byggt árið 1920. Bookless bros. starfaði til ársins 1922 er það varð gjaldþrota.

Ljósm. óþekktur. Ártal fyrir 1960.

Fjölmenni á bryggjunni, íslenski fáninn blaktir við hún. Myndin er tekin í þann mund er nýr togari í eigu Bæjarútgerðarinnar kom til Hafnarfjarðar í fyrsta sinn árið 1960. Maí GK 346 var stærsta fiskiskip Íslendinga og mikið happaskip á meðan það sigldi en árið 1977 var það tekið af skrá og selt til Noregs.

Skilti 17

Ljósm. óþekktur. Ártal 1974–1980.

Hafnarfjarðarkirkja og Hafnarfjarðarhöfn. Fáni í hálfa stöng við kirkjuna, bílum lagt í röð við Lækjargötu. Fyrir miðri mynd er minnismerki Þorkels G. Guðmundssonar „Sigling“ sem afhjúpað var árið 1974. Við norðurhöfnina liggja bátar og skip við festar. Þar má sjá flutningaskipið Hofsjökul sem keypt var til Íslands árið 1977

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1970–1975.

Norðurhöfnin séð frá suðurhöfninni, við festar eru m.a. Maí HF 346 og Njörður ÁR 38. Hús Bæjarútgerðarinnar og verkamannabústaðina við Skúlaskeið ber við himin. Þeir voru byggðir á árunum 1941–1948 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins.

Skilti 18

Ljósm. óþekktur. Ártal 1960–1970.

Hafnarfjarðarhöfn og miðbærinn séð ofan af hamrinum. Fremst eru nokkur hús við Brekkugötu, verslun trésmiðjunnar Dvergs til hægri, trésmiðjan og „nýja“ trésmiðjan í byggingu við Lækjargötu. Skip og örfáir bátar við bryggjuna.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1975–1985.

Höfnin séð frá suðri til norðurs, börn að leik og bátur við festar. Bifreiðar á ferð um nýlagða Fjarðargötuna.

Hafnarfjörður var eftirsóttur verslunarstaður á 15. öld og þótti höfnin ein sú allra besta frá náttúrunnar hendi á öllu landinu. Höfnin lá ekki á vetrum, haldbotn var góður og nægilegt dýpi fyrir skip að liggja við akkeri í nánast öllum veðrum. Vegna þess hve höfnin var góð kom upp sú hugmynd að gera Hafnarfjörð að höfuðstað landsins en landsvæðið um höfnina þótti óbyggilegt vegna hraunsins.

Skilti 19

Ljósm. óþekktur. Ártal 1947–1950.

Hringnótabátur þessi var smíðaður af Bátasmiðju Breiðfirðinga, sem þá var í bráðabirgðahúsi á Einarsreit við Reykjavíkurveg. Bátasmiðjan var stofnuð árið 1947 af þremur Breiðfirðingum, Jóhanni Gíslasyni, Þorbergi Ólafssyni og Einari Sturlusyni. Seinna var smiðjan til húsa við Hvaleyrarbraut og nafninu breytt í Bátalón.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1946.

Frá Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar. Myndin er tekin í þann mund er „Hafbjörg“ GK 7 var hleypt af stokkunum í maí 1946. Jóhannes Nyborg hannaði bátinn sem var búinn nýtísku tækjum. Hlutafélagið Björg var eigandi bátsins en bæjarútgerðin og bátafélag Hafnarfjarðar voru hluthafar í útgerðinni. Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1918, og var fyrstu árin þar sem skipasmíðastöðin Dröfn var síðar við Strandgötu 75.

Skilti 20

Ljósm. Simon M. Wood/Ásgeir G. Stefánsson. Ártal um 1955.

Vélbátur á „útstími“ úr Hafnarfjarðarhöfn, hús við Herjólfsgötu blasa við í baksýn. Báturinn var smíðaður í Hafnarfirði árið 1947 og hét þá Ísleifur GK 123 en því var síðar breytt í Örn Arnarson GK 123.

Ljósm. Gunnar Rúnar Ólafsson. Ártal 1956.

Botnvörpungurinn Venus GK 519 hafði legið við akkeri í Hafnarfjarðarhöfn í nokkur ár en slitnaði upp í aftakaveðri sem gekk yfir í desember 1956 og rak í fjöruna norðan við hafnargarðinn. Venus var sjötugasti og fimmti togari landsins skráður árið 1930 og var mikið happaskip. Brotnaði bæði yfirbygging og botn togarans og hann var talinn ónýtur en samt sem áður auglýstur til sölu í því ástandi sem hann var eftir að hafa legið og velkst um í brimgarðinum. Óveðrið var þvílíkt að sjór gekk á land, flæddi inn í hús og ruddi niður malarkamba.

Skilti 21

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1956.

Á Langeyrarmölum, árabátur í forgrunni en fiskverkunar- og íbúðarhús fjær þar sem August Flygenring reisti fiskverkunar- og þurrkhús rétt eftir aldamótin 1900.

Langeyri var til forna hjáleiga frá Görðum á Álftanesi og vestasta býlið í Hafnarfirði.

Ljósm. óþekktur. Ártal 1998–2000.

Húsið er Langeyri, snyrtilegur garður og gróðurreitur í skjóli við grjóthleðslu. Heimildir af búsetu á Langeyri ná aftur til 18. aldar. Langeyri var hjáleiga frá Görðum. Þegar verslun stóð á Langeyri um 1800 blakti fáni við hún sem villti um fyrir sjófarendum sem töldu sig vera við kaupstaðinn Hafnarfjörð. Árið 1902 lét August Flygenring reisa lifrarbræðslustöð á mölunum við Langeyri, hún starfaði aðeins í nokkra áratugi.

Langeyri eins og það er á myndinni var upphaflega byggt árið 1904 en stækkað örlítið árið 1943. Eldhús að hálfu úr steinlímdu grjóti og að hálfu úr timbri stóð við norðurgafl hússins árið 1916, því var síðar breytt í hænsnahús. Einnig stóðu á lóðinni tvö fjárhús úr torfi og grjóti. Árið 1992 færði fegrunarnefnd Hafnarfjarðar eigendum Langeyrar viðurkenningarskjöld með ártali hússins. Um 2000 var Langeyri rifin og fjölbýlishús reist á lóðinni.

Skilti 22

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1950.

Tjörn og úfið hraun, braggi og íbúðarhús. Þetta er Eyrarhraun eins og það leit út um 1950. Þá bjuggu þar hjónin Jón Pétursson og Aðalheiður Tryggvadóttir ásamt börnum sínum. Jón var málmsteypumeistari en í bragganum hafði hann steypuverkstæði.

Eyrarhraun byggðu þau Sigurjón Sigurðsson og Engilráð Kristjánsdóttir, bústýra hans, árið 1904. Bærinn var ekki stór, rétt tæplega 20 m2, skipt í eitt herbergi og eldhús, inngönguskúrinn var um 2 m2. Allur bærinn var byggður úr timbri og pappavarinn. Bænum fylgdi eldhús áfast bænum við inngönguskúrinn en við bæinn sjálfan var fjárhús og heyhlaða. Þarna bjó síðar Stefán Júlíusson rithöfundur.

Um 1950 var fjárhúsi og hlöðu breytt í íbúð og bragginn sem sést á myndinni reistur.

Árið 2004 var Eyrarhraun í eigu Hafnarfjarðarbæjar og bæjarsjóður sótti um að afskrá og rífa húsið en kveikt var í því snemma árs 2005 og það síðan rifið.

Ljósm. óþekktur. Ártal um 1950.

Tjörn, hraun og garðahleðslur upp að bæ og húsi sem ber við himin. Bæinn sem er timburbær byggði Engilráð Kristjánsdóttir árið 1918. Nefndi hún bæinn sinn „Litlabæ“. Lóðina umhverfis bæinn ræktaði Engilráð, hún stækkaði gróðurblettina með því að fjarlægja hraun, bar mold í garðana og notaði þang til áburðar. Þegar Engilráð lést var lóðin hin fegursta og nýr eigandi gaf býlinu nýtt nafn og hefur það heitið „Fagrihvammur“ síðan.

Húsið á myndinni var byggt árið 1946 af Benedikt Guðnasyni og Þuríði Guðjónsdóttur. Þau nefndu húsið Ljósaklif og höfðu kálgarða og falleg blómabeð í hraunbollum umhverfis húsið. Í Ljósaklifi bjó síðar Einar Már Guðvarðarson listamaður. Hann kom sér upp sýningarrými á lóðinni þar sem haldin voru listanámskeið og sýningar. Við fjöruna neðan við Ljósaklif stendur listaverkið „Vindspil“ eftir Einar Má sem afhjúpað var árið 2000.