Stofnskrá Byggðasafns Hafnarfjarðar

1. grein

Safnið heitir Byggðasafn Hafnarfjarðar og er starfssvæði þess Hafnarfjörður og nágrenni hans.

2. grein

Starfsfólk safnsins og stjórnarnefnd þess starfa samkvæmt stofnskrá þessari sem er í 13 greinum og samkvæmt alþjóðlegum siðareglum ICOM.

3. grein

Safnið er í eigu og rekið af Bæjarsjóði Hafnarfjarðar, það er á þjónustu- og þróunarsviði bæjarins og stjórnarnefnd þess er menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar er heyrir undir bæjarráð Hafnarfjarðar.

4. grein

Byggðasafn Hafnarfjarðar starfar í almannaþágu og er ekki rekið í hagnaðarskyni. Það starfar samkvæmt gildandi lögum um söfn; safnalögum og lögum um menningarminjar.

5. grein

Bæjarsjóður Hafnarfjarðar tryggir safninu rekstrarfé samkvæmt fjárhagsáætlun ár hvert. Það fé sem safnið aflar sjálft, með styrkjum, tekjum eða gjafafé rennur óskipt til safnsins sjálfs. Reikningar safnsins eru hluti af reikningshaldi Hafnarfjarðarbæjar og eru endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum.

6. grein

Helstu verkefni safnsins eru að byggja upp, skrá og varðveita góðan safnkost muna og ljósmynda sem varpa ljósi á sögu og menningu svæðisins samkvæmt söfnunarstefnu þess. Að miðla menningu og sögu bæjarfélagsins, meðal annars með sýningahaldi og fyrirlestrum eða með öðrum þeim hætti sem henta þykir og fjárhagsáætlun safnsins gerir kleift hverju sinni. Safnið sér um skráningu fornminja og annarra söguminja á svæðinu í samráði og samvinnu við Minjastofnun Íslands og umhverfis- og skipulagssvið Hafnarfjarðarbæjar. Þá skal safnið í samvinnu við sömu stofnanir gangast fyrir nákvæmri skráningu þeirra mannvirkja á starfssvæðinu sem af byggingar- eða menningarsögulegum ástæðum hafa varðveislugildi.

7. grein

Byggðasafn Hafnarfjarðar skal vera opið almenningi á auglýstum tímum og skal auk þess kynnt nemendum allra skólastiga í samráði við skólayfirvöld í Hafnarfirði.

8. grein

Alla þá muni, filmur og ljósmyndir og önnur safnverðmæti er safninu berast skal skrásetja vandlega, merkja og koma í svo trygga vörslu sem unnt er. Hvorki má gefa né selja þá muni sem safnið hefur eignast. Safninu er ekki heimilt að taka við munum eða öðrum minjum er sérstakar kvaðir fylgja og því er ekki heimilt að kaupa muni eða myndir.

9. grein

Safninu er heimilt að varðveita safnmuni og aðrar minjar utan veggja safnsins, gefist ekki kostur á að flytja slíka muni í safnið eða betur hentar að varðveita þá annars staðar. Að öllu jöfnu skulu þó safngripir og frummyndir ætíð varðveitt í safninu eða í tryggum geymslum á vegum þess. Bæjarminjaverði er heimilt að lána einstaka muni eða myndir úr safninu um takmarkaðan tíma.

10. grein

Bæjarminjavörður Hafnarfjarðar veitir safninu forstöðu og hefur umsjón með öllum daglegum rekstri þess og ber ábyrgð á starfsemi þess gagnvart stjórn þess og þjóðminjavörslunni. Þá vinnur hann að gerð fjárhags- og greiðsluáætlana. Bæjarminjavörður hefur ákvörðunarvald og ber ábyrgð á öllum þeim málefnum sem snerta innra starf safnsins s.s. söfnun muna og ljósmynda, skráningu þeirra, forvörslu svo og hönnun, uppsetningu og gerð sýninga. Hann hefur umsjón með húsum og öðrum eignum safnsins og ber að sjá um að þeim sé vel við haldið í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið Hafnarfjarðar. Bæjarminjavörður skal ætíð fylgja siðareglum ICOM í störfum sínum og tryggja að starfað sé eftir þeim innan safnsins. Bæjarminjavörður annast ráðningu fastra og lausráðinna starfsmanna safnsins í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun Bæjarsjóðs Hafnarfjarðar.

11. grein

Bæjaryfirvöld ráða Bæjarminjavörð að fenginni tillögu sviðstjóra og skal hann hafa sérfræðimenntun og staðgóða þekkingu á menningarsögu og starfsemi/rekstri safna. Starfið skal auglýst samkvæmt samþykktum og hefðum Hafnarfjarðarbæjar.

12. grein

Bæjarminjaverði er heimilt að ganga til samstarfs við önnur söfn innanlands sem utan eða viðurkenndar stofnanir um málefni er varða safnið.

13. grein

Ef safnið verður lagt niður rennur safnkostur safnsins til Þjóðminjasafns Íslands en aðrar eigur til bæjarsjóðs Hafnarfjarðar að höfðu samráði við ráðuneyti.