
Pakkhúsið
Í Pakkhúsinu eru að öllu jöfnu þrjár sýningar í gangi í einu, fastasýning um sögu bæjarins, leikfangasýning og þemasýning.
11:00 – 17:00 laugardaga og sunnudaga
Sýningin fjallar um sögu Lögreglunnar í Hafnarfirði frá því fyrstu tveir lögregluþjónarnir voru ráðnir til starfa árið 1908 og allar götur til ársins 2007 þegar embætti lögreglunnar Hafnarfirði var lagt niður og embættin í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík voru sameinuð.
Frá árinu 1908 voru lögregluþjónar í Hafnarfirði ávallt einn eða tveir til ársins 1927 þegar þeim þriðja var bætt við. Svo fjölgaði þeim með árunum og 1982 voru þeir orðnir 27. Upphaflega höfðu lögregluþjónarnir aðstöðu á skrifstofu bæjarfógetans að Suðurgötu 8 en 1938 var opnuð þar varðstofa. Árið 1909 voru innréttaðir tveir fangaklefar í kjallara barnaskólans við Suðurgötu. Árið 1932 voru teknir í notkun fangaklefar í svokölluðu Edinborgarhúsi við Vesturgötu. Þeir voru notaðir allt til ársins 1945 þegar lokið var við að reisa viðbyggingu við lögreglustöðina við Suðurgötu en þar voru sex fangaklefar. Það var svo árið 1987 sem lögreglustöðin var flutt að Flatahrauni 11.
Á sýningunni eru munir sem fengnir voru að láni frá Lögregluminjasafninu, Lögreglustöðinni á Flatahrauni í Hafnarfirði og nokkrum fyrrverandi lögreglumönnum.